Return to Um

Austur-Grænland

Austurströnd Grænlands er þekkt fyrir stórbrotna og mikilfenglega náttúru en er á sama tíma meðal afskekktustu staða á jörðinni. Um 3.000 manns búa í um 5 þorpum í nágrenni Tasiilaq. 800 km norðar er þorp sem telur um 500 íbúa. Tasiilaq er höfuðstaður austurstrandarinnar, þar búa um 2.100 manns. Eina leiðin til að komast til þessara byggða er í þyrlu, en að sumri til er fært á báti. Skipaferðir eru milli júní og nóvember, þá er tími fyrir alla birgðaflutninga. Sjórinn frýs á veturna, þá fer í hönd tími norðurljósa og mikilla storma sem oft ná hraða fellibyls.

Fyrir um 100 árum bjuggu Inúítar án sambands við umheiminn. Híbýli þeirra voru gerð af steinum og feldi, og þeir stunduðu veiðar á kayak. Það vekur undrun að fólk skuli hafa lifað við slíkar aðstæður og sýnir mikla kunnáttu og styrk þessa fólks.

Samkvæmt gamalli hefð trúa Inúítar á anda, sem þeir reyna á ýmsan hátt að hafa áhrif á. Hungur eftir hinu yfirnáttúrulega er djúpstætt í menningunni.

Íbúar Austur-Grænlands tala eigið tungumál, sem ekki varð að skrifmáli fyrr en fólkið eignaðist snjallsíma og fór að senda textaskilaboð.

Við fyrstu sýn virðist Tasiilaq og þorpin í nágrenni ákaflega hugguleg, með litrík húsin. Þegar gengið er um göturnar, mætir manni vingjarnlegt fólk. Allir heilsa hver öðrum og lífið fjarri vestrænu annríki virðist friðsælt. En að baki litríku húsunum og brosandi andlitum er oft hulinn veruleiki. Samfélagið á Austur-Grænlandi býr við alvarleg samfélagsvandamál: Drykkjuvandamál, vanrækt börn, misnotkun, heimilisofbeldi, fjárhættuspil, fóstureyðingar og sjálfsmorð. Margar unglingsstúlkur verða snemma ófrískar, og einhleypar mæður skortir húsaskjól. Meðal 3.500 íbúa má finna 600 börn sem félagsþjónustan sinnir. Þarna er enginn sálfræðingur í föstu starfi og litla hjálp að fá við áföllum sem nærri allir hafa gengið í gegnum. Vonleysi og brotin sambönd einkenna líf margra.

Í þorpinu Tasiilaq sem breiðir úr sér yfir 2 km² er enga framhaldsmenntun að fá. Þarna er sjaldan eitthvað um að vera. Tasiilaq hefur hvorki sundlaug né bíó og fyrsta veitingahúsið á staðnum var opnað í júlí 2018. Fólk talar um að það sé aldrei neitt að gera þarna, og fjárhættuspil og drykkja er undankomuleið margra. Börn og unglingar eru sérlega varnarlaus. Þar sem alvarleg vandamál hrjá mörg heimili, eru börn og unglingar gjarnan utandyra, á bar eða í félagheimili unglinga. Þetta ýtir undir enn frekari þjóðfélagsvandamál því slíkt umhverfi eru ekki hvetjandi fyrir nýja kynslóð.

    

IcelandDanishDutchEnglishGermanNorway