Return to Hús friðarins

Starfsemi

Starfið sem mun fara fram í Húsi friðarins snýst ekki eingöngu um að gera eitthvað, heldur miklu frekar um samfélag. Samfélag við Guð og hvert annað. Sambönd vaxa og styrkjast við samfélag í öruggu umhverfi. Ýmis konar viðfangsefni geta líka stuðlað að vexti í trúnni og opnað sýn inn í heim Biblíunnar.

Menntun

Menntun skiptir miklu máli. Austur-Grænland hefur sitt eigið tungumál en afar fáar bókmenntir eða miðlar sem hjálpa fólki að vaxa í trúnni, eru á því tungumáli. Kristilegt efni er nær allt á vestur-grænlensku. Þarna er afar takmörkuð biblíukunnátta eða skilningur á eðlilegu samfélagi, og því lífi sem Guð ætlar okkur. Biblíukennsla, sem nú fer fram heima í stofu, er dæmi um menntun sem hjálpar hverjum og einum að fá innsýn í áætlun Guðs fyrir líf þeirra. Önnur menntun og verkefni sem munu fara fram í Húsi friðarins, munu styðja þetta ferli. Til dæmis er þörf á hjónabandsráðgjöf þar sem hjón fá biblíulega kennslu og geta talað saman um kennsluefnið. Þegar hjónaband er endurheimt og verður eins og Guð ætlaði, virkar það sem hvati, sem síðan veldur breytingum í fjölskyldum og þjóðfélaginu í heild. Menntun miðar einnig að því að þjálfa framtíðar leiðtoga svo kristilega starfið verði borið uppi af innfæddum.

Gestaprédikarar og heimsóknir trúboðshópa 

Starf Húss friðarins getur einnig fengið aðstoð utan frá. Hægt væri að bjóða í heimsókn prédikurum sem geta bætt við þá kennslu sem fer fram á staðnum. Námskeiðið „Að sættast við fortíðina“ mundi verða árlegur liður í húsinu, en pastor frá vesturströnd Grænlands heldur námskeiðið. Einnig væri hægt að hýsa þar trúboðshópa sem koma í stuttar heimsóknir og hafa kraftmikil áhrif á Tasiilaq. Allt sem fer fram í og út frá Húsi friðarins byggir á því að fólk kynnist Guði og hvert öðru. Þetta snýst um samfélag. Fólk er ekki lengur eitt á báti, en það skiptir miklu máli í þessu einangraða þjóðfélagi. Jákvæð, hvetjandi sambönd og athafnir skapa andrúmsloft þar sem fólk öðlast sjálfsvirðingu og kemur auga á hæfileika sína. Þetta gefur von og heilbrigða sýn á lífið. Fólk fullt af lífi smitar lífi og þannig breiðist fagnaðerindið út.

Samfélag trúaðra

Hús friðarins mun verða staður þar sem fólk getur mætt Guði og kynnst hvert öðru. Þar verður staður bæna og lofgjörðar. Sunnudagssamkomur verða fastur liður. Verkstofur, myndakvöld og aðrar stakar samverur í Húsi friðarins munu styrkja Guðsríkið í Tasiilaq. Þegar starfið vex og hinir ungu kristnu fara sjálfir að taka þátt, virkar það enn víðar og nær út í þjóðfélagið. Það væri t. d. hægt að bjóða upp á súpukvöld, mæðramorgna með kaffi og huggulegheitum, eða kristilegt „kaffihús.“

Börn og unglingar

Hús friðarins mun verða mikil lyftistöng fyrir börn og unglinga í Tasiilaq. Þarna verður rými til að spila á hljóðfæri, syngja og semja tónlist. Það gefur þeim eitthvað annað en heimsóknir á bari og diskótek. Unga fólkið í Tasiilaq fær þarna stað þar sem þau geta kynnst Guði og smakkað á kærleika hans til þeirra. Þetta getur skipt sköpum í lífi þeirra, og hjálpað þeim að brjótast út úr ríkjandi þjóðfélagsvandamálum og taka nýja stefnu í lífi sínu, undir leiðsögn anda Guðs.

Sálgæsla

Nánast allir á Austur-Grænlandi hafa upplifað mörg áföll, sem hafa valdið þeim erfiðleikum í lífinu. Með aðstoð sálgæslu, kristilegra sjálfhjálparhópa og ráðstefna fær fólk tækifæri til að horfast í augu og takast á við sársaukafulla fortíð. Það mun læra að feta veg fyrirgefningar og taka skref til lífs í frelsi Guðs. Þannig öðlast fólk lækningu sálarinnar og endurheimtir sambönd við aðra. 

  

IcelandDanishDutchEnglishGermanNorway